Selvogsgata

5. Selvogsgata

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni. Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.

6. Selvogsgata

Selvogsgata liggur þvert yfir Helgadal. Vestan götunnar er gróinn Helgadalur með vatni í undir háum hamravegg og að austan er hraunsvæði Búrfellshraun. Í því eru nokkrir hellar, s.s. Rauðshellir, Hundraðmetrahellir og Fosshellir. Allir eru í sömu hraunrásinni, sem lokast á millum. Í grónu jarðfalli við op fyrst nefna hellisins eru miklar hleðslur, bæði neðar og ofar. Þar eru og undir jarðveginum hleðslur einhverra fornra skjóla. Skammt norðar jarðfallsins er hlaðinn stekkur. Nyrst í austanverðum Helgadal eru tóftir, annað hvort fornbæjar eða fornrar selstöðu, sem lítt hafa verið rannsakaðar.

26. Selvogsgata

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga. Ferðalangar fyrri alda hafa bæði mótað og sett spor sín á götuna sem liðast eins og farvegur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandartorfum og Kaplatór eftir varðaðri leiðinni um Hellur, upp í Grindarskörð (sem og Kerlingarskarð inn á Hlíðarveg) og áfram niður í Selvog um Hlíðardal og Strandadal. Strandartorfur og Kaplatór voru kærkomnir áfangastaðir við götuna, enda báðir skjólgóðir og beitarvænir. Hlaðin varða trjónir yfir Kaplatór.

27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata

Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við. Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna „Selvogsgata“. Í rauninni er um þrjár götur að velja og er „túrhestagatan“ nýjust. „Túrhestagatan“ er seinni tíma „gata“, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna [...]

Go to Top