5. Selvogsgata

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni. Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.