6. Dalurinn – Eldra Hellnahraun
Dalurinn er lægð norðan Hamraness, að hluta til orpinn um 2200 ára hrauni. Um „Dalinn“ segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um Ás: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“ Fjárskjólið er í Eldra Hellnahrauni og ágætt dæmi um hvernig fólk fyrrum nýtti sér náttúrulegar aðstæður til skjóls fyrir skepnur sínar. Nú hefur hraunþakið fallið niður, en eftir stendur hlaðinn gangurinn, sem fyrr er minnst á. Niðurfallið er í dag þakið plastdrasli og öðrum úrgangi - dæmigerð afurð nútímafólks, sem engan áhuga hefur á arfleiðinni. bsh