15 – Dráttarbrautin
Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð árið 1941 en árið 1944 var hafin bygging dráttarbrautarinnar sem tekin var í notkun 1946. Áður hafði helsta skipasmíði í Hafnarfirði verið í Skipasmíðastöð Haraldar Nyborg neðan við þar sem ráðhús bæjarins er núna. Hins vegar mun Bjarni riddari Sivertsen hafa haft sína merku skipasmíðastöð á þessum slóðum, í landi Ófriðarstaða, í upphafi 19. aldar. Dröfn hf. var lýst gjaldþrota 1995 en síðar eignaðist Vélsmiðja Orms og Víglundar dráttarbrautina en hún hefur ekki verið notum um langt árabil. Mynd frá um 1975. Ljósmynd: Guðni Gíslason Í húsi ofan við Strandgötuna, sem í daglegu tali nefnist Drafnarhúsið, var um langt skeið blómleg iðnaðarstarfsemi. á efri hæðinni rak Dröfn öflugt trésmíðaverkstæði en á neðri hæðinni var byggingarvöruverslun Drafnar. Í hliðarbyggingu, þar sem veitingastaðir eru í dag var járn- og vélaverkstæði sem þjónustaði að mestu skipasmíðina og viðgerðir á skipum. Vestan við dráttarbrautina standa enn smíðaverkstæði skipasmíðastöðvarinnar og nýrra hús sem hýsti minni báta og bátasmíði. [...]