21 – Skjól

Við Óttarsstaðaselsstíg eru nokkrir staðir, sem nýttir hafa verið tímabundið sem skjól fyrir fé og fólk með tilfallandi fyrirhleðslum. Má þar t.d. nefna Bekkjaskúta, Sveinsskúta og Meitlaskjól. Ofar Óttarsstaðasels eru Tóhólaskúti, Sauðabrekkuskjól og Sauðabrekkuhellar. Enn ofar er svo Húshellir. Hellar eru sérhver holrými sem leynast neðanjarðar. Hellar á Íslandi eru aðallega þrennskonar, íshellar, manngerðir hellar (í móbergi) og hraunhellar, en einnig eru önnur holrými í jörðu oft kallað hellar, t.d. skútar í sjávarbjörgum eða árfarvegum. Hellar voru áður fyrr notaðir sem mannabústaðir, og sjálfsagt verið fyrstu skýli mannsins fyrir veðri og vindum. Seinna með þróun mannkyns urðu hellar aðeins að skjóli fyrir skepnur, og jafnvel innréttaðir sem slíkir. Hraunhellar eru alls konar rásir í hrauni neðan yfirborðs jarðar. Hraunhellar geta verið af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir, hellar í hraundrýlum og hraunbólum. Þeir geta einnig myndast við svokallaðan troðhól, þá treðst kvika úr eldfjalli undir storknað hraunyfirborðið og lyftir því, þannig að holrými myndast. Móbergshellar og -skútar eru og [...]