23 – Smalabyrgi

Í eða við einstaka náttúruleg eða manngerð skjól má sjá bæli fyrir smala, s.s. í Efri-Straumsselshelli, Fjárskjólshraunsfjárhelli og við Gvendarhelli í Krýsuvíkurhrauni. Skjólið við Efri-Straumsselshelli er einstaklega heillegt. Ágætt skjól er einnig í hellinum, enda augljóst að smalinn hefur nýtt séð það. Umleikis framanverðan hellinn er hlaðið gerði, líklega nátthagi. Fyrirhleðsla er innst í hellinum til varnar því að féð leitaði innar en þörf var á. Hér á landi eru mörg örnefni sem eiga rætur að rekja til fyrri tíðar búskaparhátta sem nú eru horfnir. Eitt þeirra örnefna er Smalaskáli sem þekkt er, t.d. norðvestan Kaldársels. Smalar í hjásetunni munu hafa haft svonefnda smalakofa til að skýla sér. Smalinn gerði sér þannig eitthvert skýli, þar sem landslagi var svo háttað að ekki var skjól að fá frá náttúrunnar hendi. Þar hefur verið ákjósanlegur staður fyrir smalann að geyma mal sinn og vera á stað þar sem sást vel yfir þar sem ánum var haldið til haga. Samheiti við smalaskála [...]