2. Brúsastaðir – draugur

Á Brúsastöðum við Malirnar standa tvö hús, gamli Brúsastaðabærinn nærri sjónum og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2. Neðan gamla bæjarins ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðustu áratugum. Nefnast þeir Stífnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800. Ofan þeirra er hlaðinn garður og bátarétt skammt vestar. Brúsastaðir voru eins og hvert annað hafnfirskt grasbýli með smá túnskika í kringum bæjarhúsin, litla matjurtagarða í gjótum og vatnsbrunn í nálægri hrauntjörn. Fólkið sem byggði þessi grasbýli lifði af því sem landið og sjórinn gaf, hafði fáeinar kindur og mjólkandi kú, reri til fiskjar og vann tilfallandi störf til sjós og lands. Á heimasíðu Brúsastaðaættar er sagt að nafnið tengist fuglum af ætt Brúsa, þ.e. Himbrimum og Lómum. Þessi nafnahugmynd er nýleg en til er eldri og sennilegri skýring á nafninu. Í eina tíð stóðu margar verbúðir í landi Garðakirkju. Þegar einokunarverslunin lagðist af 1787 fjölgaði lausakaupmönnum og versluðu m.a. [...]