10 – Fjárskjól
Undir Stórhöfða, skammt vestan við Stórhöfðastíg er heillegt fjárskjól í Selhrauninu. Fjárskjól þetta hefur enn ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Það er í landi Hvaleyrar og hefur væntanlega tengst minjunum umhverfis Hvaleyrarsel, s.s. stekkjum o.fl., sem þar eru á og við Selhöfða og í Seldal. Líklegt má telja að skjól þetta hafi verið nýtt sem nátthagi, a.m.k. að hluta til. Fjárskjól eru 163 á Reykjanesskaganum, flest í hraununum ofan Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Um eru að ræða leifar fyrri búskaparhátta þegar fjárbúskapur var önnur af tveimur stoðum samfélagsins. Hin var útræðið. Enn má víða sjá minjar fjárskjólanna, langflestar í skútum, hellum eða undir slútandi klettum. Fyrirhleðslur eru jafnan úr tilfallandi efni; grjóti með dyraopum. Skjólin eru algengari í hraununum á vestanverðum Skaganum, enda aðstæður þar sérstaklega hagstæðar til skjóls fyrir fénað en á berangri og jökulsorfnum hlíðum hans að austanverðu, að Þingvallasvæðinu slepptu. Þau má gjarnan finna nálægt bæjum eða við aðra nýtingarstaði, s.s. selin. Hús voru ekki byggð [...]