þjóðleið

12. Gjásels- og Fornaselsstígur

Um hraunin ofan Hafnarfjarðar liggur fjöldi stíga. Fyrstu „ferðamennirnir“ hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúru- og/eða minjastaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík, þrátt fyrir að Sveinn Pálsson hafi lýst Reykjanesskaganum í ferðabók sinni seint á 19. öld með eftirfarandi orðum; „Hér er ekkert merkilegt að sjá…“ Selsstígarnir voru jafnan ekki alfaraleiðir, í þeim skilningi. Selstígurinn upp frá Þorbjarnarstöðum að Gjáseli og Fornaseli (ofar) hefur augljóslega verið notaður um langt skeið. Á gróinni hraunsléttunni ofan við Tobburétt eystri má sjá hann grópaðan í hraunhelluna á kafla. Bjarni Einarsson hjá Fornleifafræðistofunni gróf prufuholur í Fornaseli og birti skýrslu um árangurinn árið 2001. Markmið rannsóknanna var að freista þess að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols-aldursgreininga (C-14) og að kanna í hvaða ástandi fornleifarnar að Fornaseli væru. Að öðru leyti verður að líta á þessar rannsóknir sem fyrsta skref í rannsóknum á staðnum. Allt bendir til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá [...]

22. Kýrskarð – Ögmundarhraun

Um Kýrskarð rann hrauntunga frá Gvendarselsgígunum. Gígarnir þeir voru nyrstu útstöðvar Ögmundarhraunsgígaraðarinnar frá um 1151. Um það eldgos á einstakri sprungurein hafa verið skrifaðar fjölmargar lærðar ritgerðir. Hrauntröð er í Kýrskarði. Þar hefur hraun runnið úr tveimur syðstu gígum Gvendarselsgígaraðarinnar ofan Undirhlíða. Þeir eru hluti Ögmundarhrauns. Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún liggur frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og endar millum Helgafells og Kaldárhnúka fyrir ofan Hafnarfjörð. Þar endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Go to Top