13. Þorbjarnarstaðir – Himnaríki
Búskapur lagðist af á Hraunabæjunum um 1930, en síðast var búið á Þorbjarnarstöðum árið 1939. Þá höfðu bæði Gerði og Péturskot lagst af. Sverrir, kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði, byggði síðan sumarbústað nálægt tóftunum. Hann er nú horfinn, en sjá má móta fyrir grunninum. „Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Ekkert spurðist til bóndans um hríð, en hesturinn skilaði sér fljótt heim. Sjálfur kom bóndi undir vökulok“. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnarstaði segir, að „hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum við Alfaraleiðina skammt vestar, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu þar sem nú er Stekkurinn. Síðan er þarna kallað Himnaríki“.