Þorbjarnarstaðir

13. Þorbjarnarstaðir  – Himnaríki

Búskapur lagðist af á Hraunabæjunum um 1930, en síðast var búið á Þorbjarnarstöðum árið 1939. Þá höfðu bæði Gerði og Péturskot lagst af. Sverrir, kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði, byggði síðan sumarbústað nálægt tóftunum. Hann er nú horfinn, en sjá má móta fyrir grunninum. „Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Ekkert spurðist til bóndans um hríð, en hesturinn skilaði sér fljótt heim. Sjálfur kom bóndi undir vökulok“. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnarstaði segir, að „hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum við Alfaraleiðina skammt vestar, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu þar sem nú er Stekkurinn. Síðan er þarna kallað Himnaríki“.

18 – Brunnur

Ath: Númerið vantar við stjörnuna á prentaða kortinu. Hér má sjá staðsetningu merkja 12 0g 18 á kortinu. Brunnar voru grafnir þar sem vatnsból skorti. Á Reykjanesskaganum, þar sem fátt er um ár og læki, voru brunnar grafnir svo til við hvern bæ, stundum fleiri en einn. Víða má enn sjá fallega hlaðna brunna við gömul bæjarstæði. Brunnurinn við Þorbjarnarstaði í Hraunum er í svonefndri Brunntjörn. Hann er hlaðinn úti í tjörninni nálægt bakka þar sem ferskt vatn kemur undan hrauninu. Brunnurinn sá hefur ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Vestan við brunninn er hlaðin „þvottabrú“ þar sem ull var þvegin. Þaðan liggur brunngatan heim að bæ. Tröðin er hlaðin görðum beggja vegna. Um brunna var skrifað í Eir árið 1899: „Neysluvatn á að vera boðlegt til drykkjar og óskaðvænt heilsu manna. Vatnið er því aðeins boðlegt til drykkjar, að það sé bragðgott, litlaust, tært og lyktarlaust og hæfilega kalt bæði sumar og vetur. Vatnið er gómtamara [...]

9. Þorbjarnarstaðir stekkur – Hrútargjárdyngja

Stekkurinn ofan Þorbjarnarstaða er enn eitt dæmið um hvernig fólkið fyrrum hefur nýtt sér aðstæðurnar í hraununum til sjálfsbjargar. Stekkurinn (þar sem lömbin voru skilin frá mæðrum sínum í sumarbyrjun) er vel hlaðinn grjóti undir háu hraunhveli. Síðar var hlaðinn rétt út frá stekknum, enda stekkstíðin þá liðin undir lok. Skammt frá er Kápuskúti, fyrirhlaðið fjárskjól í gróinni hraunkvos. Ofar er Nátthagi í grónum hraundal. Segja má að fólk hafi kunnað að meta hvaðaneina er skjólgott hraunið umhverfis hafði upp á bjóða fyrrum.

Go to Top