7. Hraun við Þórðarvík – Eldra Hellnahraun
Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þórðarvík, er þar við Brunann [Kapelluhraun/Nýjahraun]. Hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun, sem heitir Hvaleyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir, er ganga þaðan inn í hraunið, og heita þeir Leynidalir.“ Hraunið er um 2200 ára gamalt. Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Norðurtakmörk ofannefndrar jarðar er, samkvæmt máldaga Hvaleyrarkirkju frá 15. öld, norðurbrún Nýjahrauns milli fjalls og fjöru. Af þessari landareign á hver jörð sitt umgirta tún, en utantúns á Þorbjarnarstaðir 3/4 en Stóri-Lambhagi 1/4.“ (Bréfið dags. í Hafnarfirði 1890.) Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Jón Sigurðsson frá Skollagróf minntist Guðmundar Tjörva Guðmundssonar, sem bjó í Straumi í Litla Bergþóri árið 1999. „Tjörvi þótti góður bóndi. Sauðfjárbúskapur mun hafa verið traustasta undirstaða búskapar í Hraununum. Vetrarbeit reyndist þar farsæl og örugg í flestum árum, bæði til fjalls og fjöru. Sölvareki á hausti og í vetrarbyrjun var árviss við Þórðarvík skammt [...]