9. Undirhlíðaleið
Undirhlíðaleið liggur, eins og nafnið bendir til, með vestanverðum Undirhlíðum frá Kaldárseli, í Sandfellsklofa og áfram til suðurs vestan við Sveifluháls að Ketilsstíg. Í Undirhlíðum hefur verið plantað í skógarreiti. Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða lundinn. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.