7 – Varða
Á Bleiksteinshálsi er varða. Þetta er landamerkjavarða milli Hvaleyrar, Áss og Jófríðarstaða. Frá henni liggur línan til austurs í vörðu á Miðhöfða. Þannig verður Hvaleyrarsel sunnan Hvaleyrarvatns í landi Hvaleyrar, Ássel skammt austar í landi Áss og Jófríðarsel í Húshöfða í landi Jófríðarstaða. Flóknara er það nú ekki - nema ef vera skyldi staðsetning vörðunnar í nútímanum. Þegar jarðvegstippur var ákveðinn austan Grísaness höfðu einhverjir a.m.k. vit á að staðnæmast með framkvæmdir við vörðuna. Vörður verða aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur. Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi. Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á [...]