6 – Skógur

Hákon Bjarnason (13. júlí 1907 - 16. apríl 1989) var skógræktarstjóri frá 1. mars 1935 til 30. júní 1977. Um miðjan sjötta áratuginn var Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns lítið annað en berangurslegir grágrýtismelar með einstaka, ofbeittum rofabörðum, þegar Hákon Bjarnason fékk úthlutað gróðursetningarlandi þar árið 1955, sem er rétt um 8 ha að stærð. Hvergi var skjól að finna og í leysingum á vorin beljaði vatn niður hlíðina, og settu djúpar vatnsrásir sterkan svip á landið. Þegar Hákon sýndi konu sinni, Guðrúnu, landið í fyrsta skipti, féllust henni hendur, leit á mann sinn og spurði: „Hvað ætlar þú að gera hér?“ Landið var girt undir haust 1955, því að allmargt fé var þá þar í haga. Árið 1968 var girðingin stækkuð til vesturs. Bústaðurinn var reistur sumarið 1958 en stækkaður rúmum áratug síðar. Lítið gróðurhús var reist 1975 norðvestur af bústaðnum og hafa þar einkum verið ræktuð jarðarber þau ár, sem það hefur fengið að standa í friði fyrir skemmdarvörgum. [...]