19. Víghóll – saga
Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól til að standa betur að vígi er að var sótt. Einhverjir þeirra gætu hafa verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. Gálgaklettar sjást vel sunnar í hrauninu, séð frá Víghól.