Markmiðið með Ratleik Hafnarfjarðar er að hvetja til útivistar og náttúru­skoðunar í fjöl­breyttu landi upplands Hafnarfjarðar og um leið að vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næsta nágrenni.

Nú eru leikirnir tveir:

  • Hinn stóri Ratleikur Hafnarfjarðar með ratleiksmerkjum, ratleikskorti og verðlaunum fyrir þátttöku sem stendur yfir frá júní til september ár hvert.
  • Litli Ratleikur Hafnarfjarðar, sem er ætlaður til að hvetja til gönguferða í bænum og næsta nágrenni hans.

Ratleikur Hafnarfjarðar

27 ratleiksmerkjum er komið fyrir víðs vegar í bæjarlandinu og jafnvel út fyrir það og þátttakendur hafa allt sumarið til að finna merkin og njóta útivistarinnar. Vandað útivistarkort fæst frítt á ýmsum stöðum, í ráðhúsinu, bókasafninu, sundstöðum, bensínstöðvum, Fjarðarkaupum og víðar.

Allir eru hvattir til að skila úrlausnum ef þeir hafa fundið 9, 18 eða 27 merki og er dregið um sigurvegara í hverri þraut. Fjölmargir útdráttarvinningar eru fyrir alla þátttakendur sem mæta á uppskeruhátíð.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar fór af stað í apríl 2020 með 15 stöðum sem fólk er hvatt til að fara á og um leið fara um göngustíga í nágrenninu.

Leiðbeiningar eru eingöngu á netinu og ekki þarf að skrá sig en fólk hvatt til að deila myndum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #LitliRatleikur