Jörðin Hvaleyri átti selstöð við Hvaleyrarvatn eins og bændur frá fornu fari.
Var fé haft þar á sumrin og annaðist selstúlka mjaltir og matargerð en smalinn hafði fé í haga og annaðist heimflutning afurða.
Þar sjást þrjár tóttir (rústir veggja) og er ein þeirra stærst.
Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn á a.m.k. tveimur stöðum og síðar um hríð í Kaldárseli.
Þar lagðist selsbúskapur af um 1880 og segir sagan að það hafi verið eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.
Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli.
Fleiri sel og minjar eru við Hvaleyrarvatn.
Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.
- Sérðu ekki móta fyrir hlöðnum veggjum?
- Hvernig skyldu húsakynni hafa verið?
Viðbótarupplýsingar
Hvaleyri var líklega með selstöðu við Hvaleyrarvatn frá upphafi og er jörðin að öllum líkindum elsta bújörð Hafnarfjarðar og hafa fundist minjar frá því í kringum árið 900 á henni.
Að vísu leiddi Sigurður Skúlason líkur að því að Hvaleyrarsel hafi verið við Kaldá og nafnið breyst í Kaldársel en það er að öllum líkindum ekki rétt enda er Kaldársel innan afréttar Garðakirkjulands og var Hvaleyrarvatn mun nær bújörð Hvaleyrar.
Um Hvaleyrarsel og nykurinn skrifaði Gísli Sigurðsson:
„Selstöðu átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selstúlku og smala. Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur heim á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig.
Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið var þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra.
Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð felmtri sleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðist við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.“
Jón og Þórunn, sem nefnd voru í sögunni, bjuggu á Hvaleyri frá 1864-1868.
Góðan daginn
Hvenær er næst ratleikur?
Kv. Elena
Stóri Ratleikur Hafnarfjarðar er að hefjast. Kortin ættu að koma í vikunni