Ásflatir voru þar sem nú er byggðin í Hamranesi sunnan Skarðshlíðahverfis. Flatirnar voru einnig nefndar Hellisdalur og Dalurinn. Í honum var Grísanesfjárskjól, sem nú hefur verið eyðilagt sökum kæruleysis.

Fram í hann rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg, millum Ásfjalls og Vatnshlíðar.

Stígur liggur um Ásflatir (Dalinn) vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja.

Landamerkjalínan liggur norður af Grísaneshálsi norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekk í Fuglstapaþúfu syðri. Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði Áss. Þaðan liggur hann á móti Skarðsstígnum upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxlinni vestari.

Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð, Skarðið.

Vestan undir Grísanesi er tóftir fjárhúss frá Hvaleyri og rétt norðan hans er gömul rétt frá Ási. Á hálsinum eru einnig stríðsminjar, s.s. fjögur hlaðin skotbyrgi.

Merkið er við stóran stein.