Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld úthlutað landi við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð.

Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir…“.

Í MBL 1986 segir að „skilyrði til skógræktar væru óvíða erfíðari en í nágrenni Hafnarfjarðar og Garðabæjar þar sem skiptust á blásnir melar og hrjóstug hraun. Mikið starf biði því ræktunarmannanna en til marks um það hvað hægt væri að gera væri Smalaskáli Jóns í holtinu fyrir ofan Sléttuhlíð. Upp af örfoka landi væri þar risinn gróskumikill skógur, sem sýndi hvaða framtíð gæti beðið holtanna í kring. Jón minntist á áníðsluna, sem landið hefði  af illri nauðsyn verið beitt um aldaraðir, hvernig skógurinn hefði verið höggvinn til kolagerðar og beittur miskunnarlaust uns svo var komið, að bældar kjarrleifar voru einar eftir á stöku stað. Hafði Jón ljóðperlur þjóðskáldanna á hraðbergi  og sagði, að við skulduðum landinu fósturlaunin. Sjálfur hafi honum hefði ávallt fundist sem honum bæri skylda til að reyna að skila landinu betra í hendur komandi kynslóða.“

Merkið er við stóra klöpp.