Áður fyrr var sjaldan talað um götur þegar leiðir voru annars vegar, miklu fremur stíga og traðir. Leiðir að einstökum kirkjum voru þó taldar til gatna, sbr. „kirkjugata“. Vegir komu síðan til sögunnar við gerð vagnvega seint á 19. öld. Frá Hafnarfirði lá Garðavegur, kirkjuvegur Hafnfirðinga, út að Garðakirkju, eða allt þangað til kirkjur (Fríkirkjan 1913 og Hafnarfjarðarkirkja, vígð 1914) voru byggðar í Hafnarfirði.
Löngum fetaði fólkið við Hafnarfjörð, allt vestur að Lónakoti, Garðakirkju fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var fyrrnefndur Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur.
Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir Hafnarfjörð hefur láðst að skrá Garðaveginn þar sem hann lá fyrrum í gegnum Norðurbæinn. Þar er einungis vitnað í þekkta fiskreiti og hlaðna garða (sem flestir eru reyndar frá nútíma). Enn má þó í byggðinni greina þar stuttan kafla sunnan húss nr. 12 við Sævang.
Fornar götur eru merkileg fyrirbæri. Þannig er a.m.k. háttað með leiðirnar í Selvogi. Útvogsstígur upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornastíg (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðaleið), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.
Fornistígur lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sjást enn nokkuð glögglega enda helsta skreiðarflutningsleið millum verstöðvanna á vestanverðum Reykjanesskaga og Skálholtsstóls.
Hinar fornu þjóðleiðir milli byggða eru víða enn markaðar í hraunhelluna eftir þúsund ára langa umferð. Selsstíganir eru og enn allgreinilegir. Stígarnir og göturnar fyrrum virðast hafa fallið fyrir ofan garð og neðan þegar kemur að skráningum fornleifa á Reykjanesskaganum. Dæmi um slíkt er Fornaselsstígur/Gjáselsstígur frá Straumi um Þorbjarnarstaði að Fornaseli í Hraunum sem og Straumsselsstígurinn vestari.
Leave A Comment