Ummerki eftir kolagrafir má sjá víða – þótt nú til dags séu þær torséðar flestum. Örnefnin og minjar þeim tengdum vísa þó veginn. Brennisel í Hraunum er eitt skýrasta dæmið. Í því má bæði sjá heillegar grjóthleðslur sem hýstu geymslu, kolagröf og skjól fyrir athafendur. Varða er á jarðfallsbrúninni er vísar veginn. Skammt norðar er önnur kolagröf, eldri og óljósari.
Viðarkol voru unnin úr kurluðu birki, fjalldrapa eða öðrum við sem settur var í gröf, oftast hringlaga, kveikt í og hún byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að viðnum. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol. Þau voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs. Kolin voru líka mikilvæg til upphitunar og járngerðar, en auk þeirra var ýmsu öðru til tjaldað er verma þurfti híbýli og óna, s.s. mosa, beingörðum, taði og þangi.
Á Íslandi var stunduð kolagerð frá upphafi byggðar, víða allt fram á 20. öld.
Víða í Heiðmörk má t.d. finna kolagrafir sem sýna að á svæðinu hefur verið mikill skógur. Um miðja sextándu öld voru, skv. heimildum, jarðirnar Elliðavatn, Hólmur og Vatnsendi í konungseign og ábúendir greiddu hluta leigugjaldsins í viðarkolum, samtals 36 tunnur á ári. Til svo mikillar kolagerðar hefur þurft mikinn við og að auki nýttu ábúendur skóginn til eigin þarfa. Hvergi eru þó tilnefndar kolagrafir staðsettar á svæðinu. Líkum er saman að jafna í Almenningum ofan Hraunabæjanna vestan Hafnarfjarðar, að framangreindu undanskildu.
Leave A Comment