Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar.

Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum, en meðal annarra tegunda sem dafna ágætlega má nefna sitkabastarð, rauðgreni, blágreni, stafafuru, fjallafuru, bergfuru og fjallaþin, auk birki- og víðikjarrs. Árið 1961 bættist Kúadalur við ræktunarsvæðið. Drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík voru einnig duglegir að planta trjám í Undirhlíðum á fyrstu árum sjöunda áratugs síðustu aldar.

Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.

Merkið er við birkikjarr.