Hafurbjarnarholt heitir hæð milli Straumssels og Fornasels í Almenningi. Í örnefnalýsingu svæðisins segir m.a.:

„Fyrir neðan og norðan Stórastein (kennileiti við Hrauntungustíg) eru Fornasel og Gjásel, þar er líka Kolbeinshæð. Hjá Gjáseli er Gjáselsskyggni, í norður frá honum er Hafurbjarnarholt, þá Markhóll, Norðastihöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði. Fyrir sunnan þessa hóla er mikið af nafnlausum hraunstrýtum, sem ná upp að mörkum milli Hraunabæja og Krýsuvíkur. Litlaholt liggur á milli Straumssels og Hafurbjarnarholts. Á holtiu er steyptur landmælingastólpi. Neðan hans er landamerkjavarða Straums og Þorbjarnastaða, Hafurbjarnarholtsvarða.  Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður.

Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel [Gjásel], sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“

Gísli Sigurðsson segir, að Fornuselshæðir  hafi verið nefndar Lýritti. Hafur-Björn hefur jafnan verið kenndur við Grindavík, einn sona Molda-Gnúps, landnámsmanns. Telja verður hæpið að nefndur Björn hafi verið heimakominn í holtinu því at’arna. Líklegra verður að telja að holtið hafi dregið nafn sitt af Þorbirni á Þorbjarnarstöðum, hafi heitið „Þorbjarnarholt“, en örnefnið breyst einhverra hluta vegna. A.m.k. er landamerkjavarða Þorbjarnastaða þarna enn efst á holtinu, undir nefndum steinsteyptum landmælingastöpli.

Merkið er við vörðu.