Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Leggja átti t.d. nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun.

Grjótið í vörðunni á Miðdegishól er fest saman með steinsteypu. Á henni stendur ártalið 1969. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, lét þá styrkja landmerkjavörður bæjarins með steinsteypu.

Merkið er við hólinn.