Í suður frá Hvaleyri sunnan túngarðs, ofurlítið uppi í holtinu, er lind, sem heitir Heiðarbrunnur. Upp á háholtinu voru nefndir Hjallar. Þangað var fiskurinn borinn til þurrkunar. Innar á holtinu var Fuglstapaþúfa nyrðri, landamerki Hvaleyrarlands í fjörunni við Hvaleyrarlón. Hún lenti í uppfyllingu Olíufélagsins. Hærra í holtinu var, og er,  Fuglstapaþúfa syðri. Umleikis hana má sjá jökulssorfnar grágrýtisklappir. Þar rétt sunnar, handan vegar og Þorgeirsstaða, eru Leirdalir.  Um þúfuna syðri lágu hornmörk Hvaleyrar, Áss, Jófriðarstaða, Óseyrar og Ásbúðar.

Heiðarbrunnur var gott vatnsstæði en þraut bæði í frostum á vetrum og þurrkum á sumrum. Úr brunni þessum var um 1930 lögð vatnsveita heim í Hjörtskot og þraut þá aldrei vatn (G.S.).

Neðan undir Heiðarbrunni í Hvaleyrarholti vestanverðu var Sædýrasafn Hafnarfjarðar, nú golfvallarflatir.

Ofan við brunninn er Flókavarða. Íbúar í Sveio í Noregi  reistu vörðuna til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og færðu Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borið síðan.

Vestan við Heiðarbrunn eru leifar af skotgröf bandamanna, en þeir reistu braggabyggð sína á Hvaleyrartanganum á stríðsárunum.

Merkið er við vatnslind.