Neðan við Ás voru Börð og Ásmelar, nú gróin tún. Þau lágu austan og ofan frá Ásholti (þar sem nú er leikskólinn Stekkjarás), en ofar og norðar voru fyrrum garðlönd Hafnfirðinga (nú Áslandshverfi). Ásvegur lá frá Norðurtröðum Áss norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti, síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.

Suðurtraðir lágu um Suðurtraðarhlið áleiðis að Hádegisskarði. Við þær var lambúsið undir Lambhúshól.

Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur.  Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið  austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.

Norðvestur frá Stekk, neðan vestasta hluta melanna, var Leirdalur, og tilheyrði nokkur hluti hans Ási, en í Fuglstapaþúfu syðri voru hornmörk jarðanna Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar.

Merkið er við gamlan plóg.