6. Setberg – Galdraprestsþúfa – draugur
Lítill hóll er við norðurbrún gamla vegarins frá Setbergi upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur Einarsson á Setbergi sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um hól þennan: „Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við [...]