1. Skerseyri – sæskrímsli
Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landkönnuðir og kortagerðarmenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi [...]