Ratleikur 2024

1. Skerseyri – sæskrímsli

Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landkönnuðir og kortagerðarmenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi [...]

2. Brúsastaðir – draugur

Á Brúsastöðum við Malirnar standa tvö hús, gamli Brúsastaðabærinn nærri sjónum og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2. Neðan gamla bæjarins ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðustu áratugum. Nefnast þeir Stífnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800. Ofan þeirra er hlaðinn garður og bátarétt skammt vestar. Brúsastaðir voru eins og hvert annað hafnfirskt grasbýli með smá túnskika í kringum bæjarhúsin, litla matjurtagarða í gjótum og vatnsbrunn í nálægri hrauntjörn. Fólkið sem byggði þessi grasbýli lifði af því sem landið og sjórinn gaf, hafði fáeinar kindur og mjólkandi kú, reri til fiskjar og vann tilfallandi störf til sjós og lands. Á heimasíðu Brúsastaðaættar er sagt að nafnið tengist fuglum af ætt Brúsa, þ.e. Himbrimum og Lómum. Þessi nafnahugmynd er nýleg en til er eldri og sennilegri skýring á nafninu. Í eina tíð stóðu margar verbúðir í landi Garðakirkju. Þegar einokunarverslunin lagðist af 1787 fjölgaði lausakaupmönnum og versluðu m.a. [...]

3. Víðistaðir – óbrynnishólmi – verndardísir

Víðistaðir er óbrynnishólmi er myndaðist í Búrfellsgosinu fyrir rúmlega 5000 árum. Hólmann byggði mannfólk síðar á öldum. Þegar hraunið ofanvert rann ofan frá Búrfelli höfðust verndardísir við á svæðinu. Dísirnar voru arfleifð huldufólks, sem hafði búið um sig í holtinu er þá fór undir hraun. Síðar, þegar mennirnir námu landið, varð huldufólkið komið upp á náðir mannanna og líkti eftir siðum þeirra, hafði kaupstaði á svipuðum slóðum og mennskt fólk, þing eins og Íslendingar fyrrum, og huldumenn þurftu í kaupstað á lestum eins og aðrir. Oft hefur heyrst strokkhljóð og búsáhaldaglamur í hólum og er eignað huldufólki. Þeir eru forsjálli og verklagnari en menn, og er hverjum hið mesta happ sem getur hegðað sér eftir háttum þeirra, til dæmis við heyþurrka, fiskróðra og þess háttar. Og eftir þeim heimildum sem við höfum um lifnaðarhætti huldufólks fyrr á öldum mætti ætla að það væri búið að taka bæði bifreiðar og flugtækni í þjónustu sína nú. En það er ekki það [...]

4. Hellisgerði – huldufólk – hellir

Álfar í íslenskri þjóðtrú eru um margt sérstakir og er orðið notað um sérstakan flokk huldufólks. Íslenskir álfar búa jafnan í klettum eða steinum og iðka búskap sinn líkt og mennirnir en kjósa að vera látnir í friði. Í íslenskum þjóðsögum er mikið til af lýsingum af samskiptum álfa og manna. Háskalegt er þar jafnan að styggja álfa, til dæmis með því að raska bústað þeirra eða slá svokallaða álagabletti. Í Hellisgerði er Fjarðarhellir, fjárhellir álfanna. Gerðið tekur nafn sitt af hellinum. Í Hafnarfirði hefur í nokkur ár verið haldin álfahátíð í Hellisgerði á Jónsmessunni. Gerðið er vel þekkt búsvæði álfa og því líklegt að slíkar vættir verði varir gestanna þessa kynngimögnuðu nótt. Þann 15. mars árið 1922 hélt Guðmundur Einarsson framsögu á fundi Málfundafélagsins Magna er hann nefndi „Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?“ Svaraði hann spurningunni játandi, m.a. með því að koma upp skemmti- og blómagarði sem yrði bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var [...]

5. Hamarinn – huldukona

Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að í Hamrinum (Hamarkotshamri) sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum. Sagan segir að eitt sinn er Gunnar var á gangi norðan- eða austan megin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum. Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. „Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er [...]

6. Setberg – Galdraprestsþúfa – draugur

Lítill hóll er við norðurbrún gamla vegarins frá Setbergi upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur Einarsson á Setbergi sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um hól þennan: „Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við [...]

7. Hvaleyri – Móðhola – draugur

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu. Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. „Utan við Hvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í. Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom að þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.“ Við Móðholu, merkið er í skútanum til hægri.

8. Hvaleyrarvatn – nykur

Í Gráskinnu hinni meiri (Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarsona) er sagt, að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftanesi. Var selstaða áður við Hvaleyrarvatn. Eitt sinn voru þar karl og kerling og gættu búpenings. Fór konan að sækja vatn og kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu og þótti líklegt að nykurinn hefði drekkt konunni. Hafa eldri menn oft heyrt skruðninga frá vatninu er ísa leysir og er það talið stafa af nykrinum. Sagt er ennfremur að eitt sinn hafi fjögur börn verið að leik út á Álftanesi og séð þar eitthvað sem líktist hesti. Fóru öll á bak nema eitt barnanna, en það sagðist ekki nenna. Hristi þá dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn vita að þetta hefði verið nykur. Önnur sögn segir að nykurinn sé jafnan annað árið í Hvaleyrarvatni, en hitt í Urriðavatni. Fari hann millum vatnanna um undirgöng. [...]

9. Borgarstandur – huldufólk

Eftirfarandi sögn af huldukonu í Borgarstandi norðan Kaldársels er úr bókinni „Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, Reykjavík 1957“, safnað af Guðna Jónssyni. Hér er hún verulega stytt, en söguna alla má lesa á ferlir.is. „Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið: „Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga.“ Þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti [...]

10. Markasteinn – huldufólk

Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir hluta Setbergslands segir: „Suðaustan Kúadals er aflöng hæð frá norðaustri til suðvesturs, Þverhlíð. Á suðvesturenda Þverhlíðar er svokallað Háanef. Austur af Þverhlíð er Syðsta-Tjarnholt, öðru nafni Fremsta-Tjarnholt, en syðst á því er stór klettur með grasþúfu uppi á. Það er Markasteinn og er á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands. Í Markasteini átti að búa huldufólk og taldi amma mín, Sigurbjörg Jónsdóttir, sig einu sinni hafa heyrt þar strokkhljóð, þegar hún var unglingur. Suðvesturhlíð Sandahlíðar, Kúadalshæðar og Þverhlíðar heitir einu nafni Setbergshlið. Hraunið þar suðvestur af heitir Gráhelluhraun og dregur nafn af stórum kletti í hrauninu, Gráhellu, sem reyndar er alls ekki hellulaga. Undir honum eru leifar fjárhúss frá Setbergi.“ Milli hraunsins, Lækjarbotnahrauns og Gráhelluhrauns, og hlíðanna, Svínholts og Setbergshlíðar, liggur Selvogsgata. Hún liggur frá Hafnarfirði, Selvogsgötu, austur í Selvog. Lengi vel var girt umhverfis Markastein til að undirstrika friðhelgi hans með hliðsjón af framangreindri sögn.

11. Óttarsstaðir – álfakirkja

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Kattarhryggur var langur bali rétt suðaustur af Vesturbænum að Óttarsstöðum. Sunnan við Kattarhrygginn er klettur margsprunginn, er nefndist Stólpi eða Álfakirkja í lægð. Bjó jafnan huldufólk í þessum klettum. Mátti því ekki hreyfa þar við strái, ekki vera í leik eða hafa mikinn hávaða". Messað var í Álfakirkjunni á Jónsmessunótt eftir miðjan júní. Nóttin er ein af mögnuðustu nóttum ársins og fylgja henni margar þjóðsögur. Kýr geta tekið upp á því að tala en hver sá sem verður vitni af því getur sturlast. Á Jónsmessunótt fara álfar og huldufólk á stjá og náttúran tekur hamförum. Allir Íslendingar hafa heyrt um lækningarmátt daggarinnar sem myndast á grösum Jónsmessunætur. Fjölmargir hafa þá venju að velta sér upp úr dögginni naktir og trúa því jafnvel að þá megi óska sér. Upphaflega var 24. júní heiðin sumarsólstöðuhátíð þar sem lengsta degi ársins var fagnað. Síðar ákvað Rómverska kirkjan að afmæli Jesú og Jóhannesar skírara skyldu [...]

12. Lónakot – álfaborg

Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Sæmundur Þórðarson keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð. Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatssótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum. Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina [...]

13. Þorbjarnarstaðir  – Himnaríki

Búskapur lagðist af á Hraunabæjunum um 1930, en síðast var búið á Þorbjarnarstöðum árið 1939. Þá höfðu bæði Gerði og Péturskot lagst af. Sverrir, kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði, byggði síðan sumarbústað nálægt tóftunum. Hann er nú horfinn, en sjá má móta fyrir grunninum. „Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Ekkert spurðist til bóndans um hríð, en hesturinn skilaði sér fljótt heim. Sjálfur kom bóndi undir vökulok“. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnarstaði segir, að „hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum við Alfaraleiðina skammt vestar, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu þar sem nú er Stekkurinn. Síðan er þarna kallað Himnaríki“.

14. Steinkirkja  – fjárskjól

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Þar suður og upp af (Bekkjaskúta/fjárskjól) er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita“. Steinkirkja dregur ekki nafn sitt af engu. Hún er stakt sprungið hraunhveli í annars grónu hrauninu norðan hraunlænu Eldra-Afstapahrauns. Í sprungunni er steinn er líkist predikunarstól. Engar skráðar sagnir eru um tilvist álfa tengda kirkjunni en líklegt verður að telja að þær hafi verið til í munnmælum fyrrum. Fjárskjólið norðan undir hólnum er rúmgott með veglegri fyrirhleðslu.

15. Straumssel  – huldumenn

Áður fyrr voru selsstörfin og smalamennskan órjúfanlegur hluti sumarvinnunnar frá fráfærum til sláttar. Enn í dag má sjá ummerki um rúmlega 400 selstöður á Reykjanesskaganum, en selfarir lögðust að mestu um 1870. Selsstörfin héldust mikið til óbreytt um aldir. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Í Selin var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Selin voru venjulega þrjú hús: selbaðstofa, búr og eldhús til hliðar eða frálaust. Þannig voru flest selin á Reykjanesskaganum, reyndar með breytingum frá einum tíma til annars. Stekkir og kvíar voru og til mjalta. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, [...]

16. Tobbuklettsrétt vestari – draugasaga

Tobba, Þorbjörg, var yfirsetukona af tröllsættum við nátthaga í Grenigjám í landi Straums. Þegar skyggja tók síðla sumars átti draugur það til að áreita hana, án meinsemda í fyrstu. Draugur þessi fór víða og eru nálæg örnefni því til staðfestingar, s.s. Draugadalir á Alfaraleiðinni, þar sem hann angraði ferðamenn, Draughóll og Draughólshraun. Síðarnefndu örnefnin urðu til eftir að Tobbu leiddist ásælni draugsa eina nóttina, sat fyrir honum norðaustan við klett þann er við hana er kenndur, og kom honum að óvörum. Eftir langvinn átök sá draugurinn sitt óvænna og flúði uppi í torfært hraunið ofanvert þarf þar sem hann hvarf inn í háan hól, en þar sem Tobba stóð móð eftir birtust fyrstu sólargeislar morgunskímunnar yfir Lönguhlíðum með þeim afleiðingum að hún varð að steini - þar sem hún er enn í dag. Nú nefnist nátthaginn Tobbuklettsrétt. Há varða, Tobbuklettsvarða, er á hól skammt norðar. Undir honum eru hleðslur; Tobbubæli. Ari Gíslason segir í örnefnalýsingu: „Austur af Rauðamel, norður [...]

17. Álfakirkja  – álfar – Gerðisstígur

Við Gerðarstíg vestan Brunans (Kapelluhrauns) eru klettaborg, millum Neðri-Hella og Vorréttarinnar. Dæmi eru um að smalar, sem staldrað hafa þar við á ferðum sínum hafi óvart glatað þar einhverju af eigum sínum. Þegar þeir hafi síðan uppgötvuðu missinn og snúið til baka hefur ekki brugðist að þeir hafi endurheimt munina. Hafa þeir vilja kenna um glettum álfanna er þarna hafast við. Gerðisstígurinn var ruddur þar sem hann liggur inn í Selhraunið og áfram með hraunkantinum áleiðis að Efri-Hellum. Neðri-hellir er rúmgóður skúti með hleðslum fyrir í grónu jarðfalli. Í sjónlínu til austurs ber Vorréttin við kantinn á Kapelluhrauni. Þetta er vel hlaðin rétt. Gott skjól eru í hraunskútum innan hennar. Efri-hellar eru enn ofan við hraunkantinn. Allir þessir staðir eru verðugir skoðunar. Hrauntungurnar ofar eru allstórt gróið hraunssvæði enn ofar, umlukið nýja hrauninu (Kapelluhrauni/Brunanum/Nýjahrauni).

18. Valahnúkar – tröll – ATH

ATH: Rétt merki nr. 18 er á Valahnúkum. Slæðst hefur inn á prentaða kortið talan 18 á milli Alfaraleiðar og eldri línuvegar Suðurnesjalínu. Hún á ekki að vera á kortinu. Steinrunnin tröll trjóna efst á Valahnúkum. Þau sáust langt að og reyna heldur ekki að leynast. Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglyndir náttúruvættir. Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum [...]

19. Víghóll – saga

Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól til að standa betur að vígi er að var sótt. Einhverjir þeirra gætu hafa verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. Gálgaklettar sjást vel sunnar í hrauninu, séð frá Víghól.

20. Gálgaklettar – aftökustaður

Við Selvogsgötuna austan Helgafells má finna Gálgakletta sem svipar mjög til klettanna á Stafnesi. Á svæðinu eru fjölbreytt hraun, gróin svæði og klettabelti. Klettarnir sjást vel ef Selvogsgötunni er fylgt til austurs þegar komið er yfir ásinn austan Mygludala (austan Valahnúka (Valabóls)). Í Setbergsannál á 15. öld segir m.a. að „12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Hafi yfirvaldið, í stað þess að drösla þjófunum til byggða, ákveðið að hengja á í Gálgaklettum í Húsafellsbruna.“ Líklegra má telja að nefndur hellir hafi verið Rauðshellir í Helgadal, vestan Húsfells.

21. Dauðadalir – útilegumenn

Dauðadalir hafa löngum haft yfir sér dulúð, án þess að nokkrar skráðar heimildir séu beinlínis til um þá. Þó hallast margir að því að útilegumennirnir, sem handsamaðir voru við Húsfell á 15. öld hafi um skeið haldið til í dölunum. Hér er að finna hin ágætustu skjól, en hvergi er sýnilegum mannvistarleifum til að dreifa, nema ef vera skyldi í Rauðshelli í Helgadal. Aðrar gætu mögulega verið þaktar mosa, líkt og víða eru dæmi um. Þá skortir hér vatn, að því er virðist við fyrstu sýn. Hins vegar, ef betur er að gáð, má vel merkja forna lækjarfarvegi neðan vestanverða Markraka, auk vatnsbólsins ofan Kaldárhnúka í Helgadal. Sagan gæti tengst annarri slíkri. Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um „Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði“. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar: „Selsvellir og Hverinn eini. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást [...]

22. Markraki – tröll

Þeir fáu sem lagt hafa leið sína um Markraka undir Lönguhlíð hafa veitt athygli „vörðu“ á móbergshrygg. Í dag er varðan sú landamerkjavarða millum landa Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Svo var nú ekki fyrrum. Þessi varða er merkilegt fyrirbæri. Sagan segir að tröllskessa í Kistufelli (sumir segja í Hvirfli) hafi fyrir alllöngu lagt af stað við sólsetur áleiðis að Hvaleyri þar sem frést hafði af hvalreka. Systrum hennar ofan við Bolla og í Kerlingarhnúk hefðu og borist boðin. Þær héldu hiklaust niður að Hvaleyri. Tröllskessan í Kistufelli átti lengri leið fyrir höndum. Hún þurfti að fara niður háheiðina ofan Lönguhlíðar með stefnu á Kerlingargil. Í myrkri og þoku villtist hún af leið og kom fram á brún hlíðarinnar þar sem nú heitir Mígandagróf. Nafnið er ekki komið af engu, en skal ekki fjölyrt meira um það hér. Nú er þar í og ofan við pollinn ein hin mesta litskrúð, sem þekkist á gjörvöllum Reykjanesskaganum, ef frá eru skildir hverirnir. Um [...]

23. Gullkistugjá – saga

Gullkistugjá er löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um hraunið. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Manngerð brú er þvert yfir miðja gjána. Í þjóðsögum eru sagnir um faldar gullkistur í gjám og sprungum. Jafnan, þegar fólk hefur reynt að ná þeim upp, á þá nálægur bær líkast því að stæði í ljósum logum svo hræðsla greip um sig meðal viðkomandi og hætt var við verkið. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er í Landnámu sagður hafa búið á Skúlastöðum. Hann nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Munnmæli munu vera um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlatúnshraun sé, norðan við Lönguhlíðarhorn, sbr. umfjöllun í ritinu Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða. Árni Helgason minnist á Skúlastaði og menjar þeirra í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 (bls. 211). Hafi Skúlastaðir staðið þar sem munnmæli segja, eru líkur fyrir því að Almenningsskógalandið og Garðaland hafi verið [...]

24. Stóri Skógarhvammur  – tröll -ATH

ATH: Eldra merki hefur slæðst inn á prentaða kortið en merki 24 er norðan og austan Bláfjallavegar en EKKI vestan Krýsuvíkurvegar. Þar er merkt merki 24 sem á ekki að vera á kortinu. Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðakróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingargili (sem er utan við Lönguhlíðarhornið). Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana. Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður úr hlíðunum hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið úr Bollunum kom frá gígunum ofan Skarðanna. Stóribolli er þar einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna að ofanverðu eru háir móbergsveggir. Kerlingagilið er ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar og áfram inn í Brennisteinsfjöll. Um gilið fóru smalamenn fyrrum. Sagan segir [...]

25. Leirdalir (Slysadalur) – sögn um slysfarir

Slysadalir hétu áður Leirdalir. Eftir að útlendur ferðamaður kom frá Krýsuvík með þrjá til reiðar á 19. öldinni og hafði farið um Hvammahraun og niður Fagradal að vetrarlagi (hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta). Þegar ferðamaðurinn kom niður í Leirdali voru vilpur í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð ekki. Enn má sjá grónar stórar þúfur í Slysadal, en það ku vera dysjar hestanna tveggja.

26. Landamerkjavarða – þjóðsaga

Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum. Má þar m.a. nefna þjóðsöguna er kveður á um að sá eða þeir sem færa til landamerkjavörður og hlaða aðrar til að villa um fyrir fólki eigi á hættu að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er – að þeim látnum. Þjóðsögurnar voru þannig oftlega kennisögur, nokkurs konar dæmisögur, um það hvernig væri best að haga sér í lifanda lífi. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að vara við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi - og yfirvaldið hafði velþóknun á. Framangreint er ekki af ástæðulausu. Einstakir bændur voru fyrrum grunaðir um að útfæra landamerki jarða sinna eftir því sem aðstæður sköpuðust, hvort sem var vegna þekkingarleysis eða af gefnu tilefni, s.s. við ábúendaskipti.

27. Húshellir – hreindýraveiðimenn

Norðan Hrútagjárdyngju er Húshellir. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við geimur og eru gangar í tvær áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera. Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa. Í stórvirkinu „Íslenskir hellar“ segir Björn Hróarsson svo frá Húshelli: „Björn Finnsson og Hörður Þór Sigurðsson fundu Húshelli sumarið 1988. Hellismunninn er um tveir metrar á breidd og eins og hálfs meters hár. Innan við munnann skiptist hellirinn í tvær meginrásir og eina þrengri. Þegar komið er rétt inn fyrir [...]

Go to Top