Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá sextándu.
Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju.
Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir og Hvaleyrartjörn í tímaritið Sögu árið 1963:
„Fornubúðir hét hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.“
Þá segir hann einnig: „.. en það, sem tekur af öll tvímæli um legu verzlunarstaðarins, eru þó ummæli Skarðsár- og Setbergsannála um drukknun þeirra Bjarnastaðafeðga, Ásbjörns Jörinssonar og sona hans. Hann vildi ríða ósinn frá verzlunarstaðnum, e« ósinn var óreiður. Við þekkjum þetta Hafnfirðingar, sem munum ósinn milli Háagranda og óseyrar meðan hann var óheftur. Þá var hann hverjum hesti ófær, með an harðast var í honum útstreymið. Að öllu þessu athuguðu mun því mega f ullyrða, að Fornubúðir, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð, hafi staðið á Háagranda innst á Grandanum við Hafnarfjörð.“
Kirkjan sem Hansakaupmenn reistu á Háagranda að talið er 1533 var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“. Var kirkjan notuð til 1603.
Þann 1. júlí 2003 afhjúpuðu forsetar Íslands og Þýskalands minnismerki á Óseyrarbryggju til minningar um fyrstu lúhersku kirkjuna sem reist var á Íslandi fyrir u.þ.b. 400 árum síðan. Það var þýski listamaðurinn Hartmut Wolf sem gerði listaverkið sem myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti.
Leave A Comment