Fyrrum, eða allt til loka 19. aldar, var selstaða frá nánast hverjum málsmetandi bæ. Í dag má sjá 401 slíka á Reykjanesskaganum. Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Garðar höfðu einnig selstöðvar við Kaldársel. Hvaleyrarbóndi hafði selstöðu við Hvaleyrarvatn og síðar í Kaldárseli. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866, þótt búskapur hafi verið þar með slitrum um skamma hríð eftir það. Garðabæirnir höfðu auk þess selstöður í Selgjá og nágrenni. Ein selstaðan er í Helgadal, við svonefndan Rauðshelli. Önnur, umfangsmeiri, er þar skammt sunnar. Ekki er ólíklegt að þessar selstöður hafi um tíma ýmist verið nýttar stakar eða saman. Hlaðinn stekkur er ofan við selstöðuna í grónu jarðfalli Rauðshellis, auk þess sem hellirinn hefur verið nýttur sem fjárskjól. Í jarðfallinu leynast hleðslur undir sverðinum.
Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; „Það stenst á endum strokkur og mjaltir“. Sagt var einnig að ráðskonur hefðu haft það til að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Þau voru jafnan staðsett við læk, á, vatn eða vatnsstæði. Stekkur var og jafnan í selinu, auk nátthaga. Á Reykjanesskaganum voru þau gjarnan í skjóli fyrir suðaustanáttinni (rigningaráttinni).
Leave A Comment