Hraungígar á Reykjanesskaganum eru af þrennum toga; Dyngjur (10.000-5000 ára), s.s. Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja, stakir gígar (5000-2000 ára), s.s. Búrfell í Ölfusi, Búrfell ofan Garðabæjar og Leiti austan Bláfjalla, og gígaraðir á sprungureinum, s.s. Sundhnúkar; Eldvörp og Ögmundarhaunsgígaröðin frá sjó að Helgafelli.

Víða ofan Hafnarfjarðar má sjá gíga á gígaröðum. Horfa þarf til þess að yngri hraunin hafa í gegnum tíðina runnið yfir þau eldri og því breytt landslaginu frá einum tíma til annars.

Talið er að gosið hafi á sprungunni um miðja 12 öld og þá verið hluti af Krýsuvíkureldunum (Ögmundarhraun, Traðarfjallahraun, Sanddalshraun).

Gossprungan nær frá sjó í suðri að Kaldárhnúkum í norðri. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígarnir sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram úr dalnum til norðvesturs. Lítill hrauntaumur hefur runnið niður í Kaldárbotna en meginhraunstraumurinn, sem reyndar er ekki stór, hefur runnið út yfir farveg Kaldár og meðfram honum, um eins kílómetra veg.

Þykkt Gvendarselshrauns virðist víðast um og innan við einn metri. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum skammt sunnar verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13,7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 m er rúmmál þess um 0,07 km.

Leiddar hafa verið að því líkur að Ögmundarhraun hafi runnið árið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Líklegt þykir að gosið hafi nokkrum sinnum á gossprungunni allri á nokkurra ára tímabili.

Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!