Ath: Númerið vantar við stjörnuna á prentaða kortinu.

Hér má sjá staðsetningu merkja 12 0g 18 á kortinu.

Brunnar voru grafnir þar sem vatnsból skorti. Á Reykjanesskaganum, þar sem fátt er um ár og læki, voru brunnar grafnir svo til við hvern bæ, stundum fleiri en einn. Víða má enn sjá fallega hlaðna brunna við gömul bæjarstæði.

Brunnurinn við Þorbjarnarstaði í Hraunum er í svonefndri Brunntjörn. Hann er hlaðinn úti í tjörninni nálægt bakka þar sem ferskt vatn kemur undan hrauninu. Brunnurinn sá hefur ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Vestan við brunninn er hlaðin „þvottabrú“ þar sem ull var þvegin. Þaðan liggur brunngatan heim að bæ. Tröðin er hlaðin görðum beggja vegna.

Um brunna var skrifað í Eir árið 1899: „Neysluvatn á að vera boðlegt til drykkjar og óskaðvænt heilsu manna. Vatnið er því aðeins boðlegt til drykkjar, að það sé bragðgott, litlaust, tært og lyktarlaust og hæfilega kalt bæði sumar og vetur. Vatnið er gómtamara ef ögn er í því af kolsýru (uppsprettuvatn). Vatnið er óskaðvænt heilsu manna, ef ekki eru saman við það nein þau efni, dauð eða lifandi, er sýkt geti líkamann, ef vatnsins er neytt, en um þetta verður oft ekki dæmt í fljótu bragði. Hvergi á jörðunni finnum vér alveg hreint vatn. Á leiðinni úr skýjunum niður á jörðina tekur regnvatnið i sig ýmis efni úr loftinu, bæði loftkennd efni, ryk og gerla; þá er niður er komið, fær vatnið í sig ýmis efni úr jarðveginum, leysir þau upp, eða blandast þeim.

Þar sem engar lindir eru, má engu að síður víðast hvar ná i jarðvatnið, ef jarðvegurinn er þannig gerður, að hægt er að vinna hann og vatnið ekki afar djúpt í jörðunni; ekki þarf annað en gera gang beint niður í jarðveginn, þar til er kemur niður í jarðvatnið. Vatnið safnast þá á gangbotninn. Slíka ganga köllum vér brunna. Þeir eru tvenns konar, leggbrunnar og strokkbrunnar. Það er strokkbrunnur, ef gangur er grafinn niður í jarðveginn, en leggbrunnur ef járnpípa er rekin niður í jörðina. Allir brunnar hér á landi eru strokkbrunnar, enginn leggbrunnur til. Strokkbrunnar eiga að vera hlaðnir innan úr grjóti, og er mjög áríðandi, að hleðslan sé vatnsheld, til þess að óhreina vatnið í efstu jarðlögunum (leysingavatn, regnvatn) komist ekki inn í gegn um hleðsluna og niður í brunninn. Ef brunnurinn er mjög grunnur, 4–8 fet, og byggt ból í kring, þá er ávallt hætt við, að óhreinindi geti komist niður í jarðvegsvatnið kringum brunninn og runnið inn í hann undir hleðsluna. Ef kostur er á vatni djúpt í jörðu, 20—40 fet eða meira, og brunnurinn gerður svo djúpur, þá má treysta því, að vatnið sé hreint.“