Fyrstu trén voru gróðursett í Gráhelluhrauni, eitt af Búrfellshraununum, 27. maí 1947. Fyrsta sumarið var 2.300 trjáplöntum plantað í hrauninu.
Í námunda við minningarskjöld um Guðmund Þórarinsson kennara og skógræktarfrömuð má sjá há furu- og grenitré. Í norður frá steininum, sem skjöldurinn er festur á, má einnig sjá fallegt lerkitré.
Lerki (Larix), áður kallað lævirkjatré eða barrfellir, er sumargrænt barrtré sem vex í barrskógabeltinu á norðurhveli eða til fjalla á suðlægari slóðum. Til ættkvíslarinnar teljast 10-15 tegundir en lerki er af þallarætt.
Engin lerkitegund er ættuð úr mjög hafrænu loftslagi og því skortir nokkuð á að þær séu aðlagaðar íslensku veðurfari. Hins vegar virðast þær kunna mjög vel við íslenska eldfjallajarðveginn og vaxa því betur í rýru landi en aðrar ættkvíslir trjáa. Síberíulerki hefur frá því snemma á 20. öld verið notað til skógræktar á Íslandi. Rússalerki, náskylt síberíulerki eða afbrigði af sömu tegund, hefur mestmegnis tekið við af því frá um 1980 en síberíulerkið er viðkvæmara fyrir íslensku loftslagi og sjúkdómum. Rússalerki er nú eitt algengasta skógræktartré á Íslandi og hefur náð yfir 23 metra hæð. Evrópulerki hefur einnig verið notað á Íslandi. Tré af þeirri tegund gróðursett snemma á 20. öld hafa tvisvar verið útnefnd tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands.
Blendingur af evrópulerki og rússalerki hefur verið þróaður hjá Skógræktinni og kallast Hrymur. Flestar ef ekki allar tegundirnar geta blandast innbyrðis. Annar blendingur sem reyndur hefur verið á Íslandi er sifjalerki. Sifjalerki er blendingur á milli japanslerkis og evrópulerkis. Það erfir gjarnan góða eiginleika foreldranna og sýnir mikinn blendingsþrótt. Það merkir að vaxtarhraðinn er meiri en hjá báðum foreldrunum.
Lerki hefur þá sérstöðu að fella barrið á haustin. Því getur lerki myndað glæsilega, gula haustliti. Aðrar ættkvíslir af þallarætt, sem ræktaðar eru á Íslandi, gera það ekki. Reyndar er það svo að ekki er mikill munur á fjölda barrnála sem falla til jarðar árlega í lerkiskógum og öðrum skógum ættarinnar. Önnur tré svo sem furur, þinur og greni, fella jafn mikið barr árlega en þar verður hver barrnál nokkuð eldri á hverju tré. Þau eru því sígræn.
Allt lerki er ljóselskt og margar þrífast við rýran kost. Því er það mjög gjarnan nýtt sem frumherjatré á Íslandi. Tré sem veita öðrum gróðri gott skjól og bæta bæði jarðveg og staðviðri. Að jafnaði eru lerkiskógar bjartari en aðrir barrskógar. Þeir hleypa meira ljósi í gegnum sig þannig að gróður í botni þeirra getur verið fjölbreyttur og gróskumikill.
Allar mynda lerkitegundirnar einstofna og hávaxin tré ef aðstæður leyfa. Hér á landi láta sumar tegundir blekkjast af umhleypingum og eiga því á hættu að verða fyrir endurteknu kali. Því er það svo að því fer fjarri að öll lerkitré á landinu séu með einn beinan og hávaxinn stofn. Ef og þegar lerkitré eru beinvaxin mynda þau mjög eftirsóttan við sem er til margra hluta nýtanlegur. Viðurinn þolir vel raka og ásókn fúasveppa. Því má vel nota þá í glugga, pallaefni og margt fleira.
Lerkitré hafa lengi verið ræktuð á Íslandi og eru enn mjög mikilvæg skógartré. Það sem helst hefur komið í veg fyrir að þau séu enn meira ræktuð er skortur á heppilegu fræi.
Leave A Comment