Hákon Bjarnason (13. júlí 1907 – 16. apríl 1989) var skógræktarstjóri frá 1. mars 1935 til 30. júní 1977. Um miðjan sjötta áratuginn var Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns lítið annað en berangurslegir grágrýtismelar með einstaka, ofbeittum rofabörðum, þegar Hákon Bjarnason fékk úthlutað gróðursetningarlandi þar árið 1955, sem er rétt um 8 ha að stærð. Hvergi var skjól að finna og í leysingum á vorin beljaði vatn niður hlíðina, og settu djúpar vatnsrásir sterkan svip á landið. Þegar Hákon sýndi konu sinni, Guðrúnu, landið í fyrsta skipti, féllust henni hendur, leit á mann sinn og spurði: „Hvað ætlar þú að gera hér?“
Landið var girt undir haust 1955, því að allmargt fé var þá þar í haga. Árið 1968 var girðingin stækkuð til vesturs. Bústaðurinn var reistur sumarið 1958 en stækkaður rúmum áratug síðar. Lítið gróðurhús var reist 1975 norðvestur af bústaðnum og hafa þar einkum verið ræktuð jarðarber þau ár, sem það hefur fengið að standa í friði fyrir skemmdarvörgum. Fyrstu trén voru gróðursett vorið 1956, bæði á hólnum ofan við bústaðinn og austan við hann. Allar götur síðan var einhverju plantað á hverju ári. Langmest hefur verið gróðursett af sitkagreni, stafafuru, bergfuru og alaskaösp. Í dag er þarna í Vatnshlíðinni hinn myndarlegasti skógur – ágætt dæmi um staðfestu manns, sem trúði á hið mögulega við ómögulegar aðstæður.
Við landnám var 66% landsins gróið grasi og blómgróðri og 33% skógi. Aðal trátegundirnar voru það sem kallaðar eru íslensku trjátegundirnar, víðir, birki og reynir. Hér voru fáar tegundir vegna einangrunar landsins. Eftir landnám eyddust skógar landsins af ágangi mannsins, dýra og veður- og náttúrufars s.s. eldgosa. Menn notuðu trjávið til upphitunar og kindurnar gæddu sér á birkinu. Það var ekki fyrr en Danir fóru að benda landsmönnum á að fara að rækta skóg að menn tóku við sér en enginn Íslendingur hafði í raun trú á að hér væri hægt að rækta skóg. Árið 1899 hófst skipulögð skógrækt hér á landi en þá var plantað á Þingvöllum. Fyrstu lögin um skógrækt og landgræðslu voru svo sett árið 1907 og þá var farið að friða þá skóga sem enn voru eftir.
Til að efla skógræktina stofnaði ríkið skógræktarstöðvar víða um land og sáu þær um að framleiða plöntur og um útplöntun. Margir hugsjónamenn fóru víða um heim til að safna fræjum og taka stiklinga til að finna nýjar tegundir sem gætu dafnað á Íslandi. Fjölgaði tegundum fljótt en fyrst og fremst var þetta greni, fura, ösp og lerki en fjölmargar tegundir hafa líka verið ræktaðar hér á landi.
Skipta má skógræktinni í tvennt, annars vegar útivistarskóga eða yndisskóga og hins vegar nytjaskóga. Í dag er ríflega 1% landsins skógi vaxið en markmið skógræktarinnar er að það verði 5%. Fólk þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af því að skóglendi muni byrgja útsýn þeirra sem ferðast um landið. Upp á síðkastið hefur umræða um skógrækt í tengslum við mengun aukist vegna þess að skógurinn sér um að binda kolefni sem er nauðsynlegt fyrir lífið á jörðinni.
Leave A Comment