Byggðin á Ásvallasvæðinu stendur á Hellnahraununum. Hraunin runnu frá hlíðunum austan Lönguhlíða með þúsund ára millibili. Hið yngra er um 1200 ára. Ofan Valla nefnist hraunið Selhraun – langleiðina upp að Snókalöndum gegnt Brunntorfum. Það var á síðustu öld notað fyrir fiskhjalla, auk þess sem því hefur á síðustu áratugum að hluta verið spillt af efnistöku og með jarðvegstipp. Dúfnakofar standa nú við Hrauntungustíg, þar sem áður voru hjallar (trönur).
Mosar eru áberandi gróðurtegund í upplandi Hafnarfjarðar. Tegundin er með litlar grænar plöntur, sem flestar hafa blöð og stöngul. Mosar hafa engar rætur og því halda þeir sér föstum og sjúga upp næringu með þráðum. Mosar fjölga sér með gróum. Upp af gróinu sprettur forkímsþráður og mosinn sjálfur upp af honum. Þegar eggfruman er frjóvguð, vex upp af henni stafur með bauklaga gróhirslu. Mosajurtin er hinn kynjaði ættliður, en gróhirslan og þráðurinn kynlaus.
Mosum er skipt í soppmosa, hornmosa og baukmosa. Í öllum heiminum er talið að séu 35 þúsund tegundir mosa, sem skiptast í 177 ættir og 1822 ættkvíslir.
Mosar eru mjög algengir á Íslandi. Þeir finnast innan um nær allan gróður en eru stundum sjálfir aðalgróðurinn, einkum í ófrjórri jörð, bæði til fjalla og á láglendi, t.d. í hraunum og móum. Þeim nægir örlítil fokmold, sem sest í holur, jafnvel í nýlegum hraunum. Fáir hafa haft áhuga á mosafræði, en flestir þekkja þó grámosann á hraununum, fagurgræna dýjamosann við kaldar uppsprettur og svo bústinn gamburmosann. Hér á landi vaxa um 600 tegundir mosa, eða álíka margar og allar villtar háplöntutegundir á landinu.
Leave A Comment