Við Straumsselsstíg vestari er grjóthlaðið U-laga skotbyrgi. Annað sambærilegt er vestan við Straum. Hið þriðja á Smalaskálahæð skammt sunnar. Svona mætti lengi telja. Um eru að ræða skjól refaskyttu, ýmist skammt frá grenjum eða á útsýnisstað um ferðir lágfótunnar.
Byssur komu hingað til lands á 15. öld. Þeir sem skoða Þjóðminjasafnið sjá þess þó hvergi merki að hér hafi nokkru sinni verið skotið úr byssu hvað þá að þær hafi verið notaðar til lífsbjargar, hins vegar er mikið til sýnis af verkfærum til sjósóknar og landbúnaðar. Það er helst á söfnum úti á landi að maður sjái gripi sem tilheyra skotveiðum, byssur, púður, högl og haglapunga. Innan um eru hinir merkilegustu gripir, til dæmis haglabyssur og rifflar sem hafa verið notaðir hér á landi.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara. Allt frá upphafi var litið á refinn sem ógagnsemisdýr, sem þyrfti að halda í skefjum. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.
Meðal veiðiaðferða í upphafi voru reykbræling og grjótgildrur, dýrabogar komu síðar og byssur til almennra nota komu um aldamótin 1700 og voru orðnar aðalvopnið í lok 18. aldar.
Skotbyrgi eru af tvennum toga; annars vegar lítil hlaðin refaskyttuskjól inn til landsins við ströndina fyrir fuglaveiðimenn eftir að byssur komu til sögunnar og hins vegar ýmist hlaðin eða steypt byrgi frá því á Styrjaldarárunum síðari. Síðarnefndu byrgin má finna víða á Reykjanesskaganum, s.s. á Ásfjalli, Á Garðaholti og í Öskjuhlíð. Þau voru gerð til að hlífa hermönnum fyrir meintum árásum óvina.
Skotbyrgin við ströndina eru flest fallin vegna sjávargangs. Hlaðin byrgi refaskytta má þó enn sjá víða við greni. Í þessum byrgjum lágu refaveiðimenn fyrir ref, jafnvel dögum saman – allan ársins hring.
Leave A Comment