Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Sæmundur Þórðarson keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð. Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatssótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum. Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina fyrir búfénað sinn. Þau bjuggu þá í litlu bakhúsi við Krosseyrarveg.

Þegar gengin er gatan niður að Lónakoti frá Reykjanesbraut blasir við, er komið er framhjá Hádegisvörðu, stök háleit klettaborg. Rétt austanvert við götuna er þúfnakargi og lítil fjárhústóft með hlöðnum einföldum garði umhverfis, Kotagarði. Þetta svæði nefnist Kofinn eða Dys í Koti og rétt austar er fjárgerði sem kallast Kotagerði. Þarna mun gamli Lónakotsbærinn hafa staðið áður en Landlæknir lét brenna kotið eftir að skarlatssótt kom upp. Tveimur árum síðar voru bæjarhúsin byggð upp á Bæjarhólnum, sem nú blasir við.

Dóttir Sæmundar, Sjöfn, man vel eftir því að hún og systir hennar, Guðrún, hafi séð til álfa við klettaborgina þegar þær dvöldu með föður sínum, Sæmundi í Lónakoti.