26. Smalaskálahæð
Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Ofan við Jakobsvörðu, upp undir Keflavíkurvegi (gamla), neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigurðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói. Ofan við gamla [Suðurnesja]veginn er hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker, Smalaskálaker. Í því var listaverkið „Slunkaríki“. Smalaskálahæðir heita hæðirnar umleikis.“
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna, neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni (Óttarsstaðafjárborg/Kristrúnarborg) vestan við Smalaskálahæðir.
Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, skammt ofan við gamla veginn. Annar grjóthlaðinn aflangur smalaskáli er utan í hraunhól skammt vestar. Hann sést vel frá veginum.
27. Sigurðarhæð
Vestan götunnar að Óttarsstöðum á vinstri hönd er Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann fyrir mörgum árum). Rétt þar fyrir norðan var jarðfall slétt í botn og réttarveggir hlaðnir á brúnunum. Rétt þessi var venjulega notuð á haustin, en hún hefur nú verið rifin niður.
Talsvert suður af þessu er klapparhæð, er nefnist Sigurðarhæð. Í henni er hellisskúti með fyrirhleðslum, sem Sigurðarhellir heitir. Talið er að einhver Sigurður hafi haldið þarna til um stund í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í hellum og skútum um tíma. Við hellinn eru leifar af hlöðnu gerði.
Suðvestar er mikill áfastur klapparrani, hár og aflangur. Á honum er há varða, Sigurðarvarða, við Óttarsstaðaselstíginn. Suðaustan í honum er feikna mikið jarðfall. Í því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þarna mun hafa verið nátthagi Straumskúnna – þrátt fyrir að hvylftin sé vestan við landamerkin milli Straums og Óttarsstaða, þ.e. Óttarsstaðamegin.
Ekki var óvanalegt að nágrannar skiptust á nytjum í skiptum t.d. skógarítak, útræði, kolagerð, fjárskjól o.s.frv.
Mekið er við skútann.