15. Straumssel – huldumenn
Áður fyrr voru selsstörfin og smalamennskan órjúfanlegur hluti sumarvinnunnar frá fráfærum til sláttar. Enn í dag má sjá ummerki um rúmlega 400 selstöður á Reykjanesskaganum, en selfarir lögðust að mestu um 1870. Selsstörfin héldust mikið til óbreytt um aldir. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Í Selin var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Selin voru venjulega þrjú hús: selbaðstofa, búr og eldhús til hliðar eða frálaust. Þannig voru flest selin á Reykjanesskaganum, reyndar með breytingum frá einum tíma til annars. Stekkir og kvíar voru og til mjalta. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, [...]