Fjárborgir á Reykjanesskaganum eru 142 talsins. Flestar eru borgirnar vel sýnilegar, en sumar þarf að gaumgæfa. Hinar fyrrnefndu rata jafnan inn í fornleifaskráningar, en hinar síðarnefndu ekki. Borgirnar voru jafnan hringlaga byrgi hlaðið úr torfi eða grjóti sem notað var fyrr á öldum til að skýla sauðfé fyrir veðri og vindum. Þær voru framhald fjárskjóla og undanfari fjárhúsa, en ekki voru byggð hús sérstaklega yfir sauðfé á svæðinu fyrr en í byrjun 20. aldar. Oftast voru aðeins háir veggir á fjárborgum en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Aðeins ein dyr var og þær oftast aðeins fjárgengar. Leifar einnar slíkrar eru á Borgarstandi norðan Kaldársels. Um er að ræða topphlaðna fjárborg, sem með tímanum hefur fallið saman. Áhrif aðdráttarafls jarðar gildir jú um þær líkt og annað. Borgin er tiltölulega lítil umleikis, en það var forsenda þess að hægt var að hlaða í topp. Önnur sambærileg fjárborg var áður skammt austar á Borgarstandi, en Hafnfirðingar hirtu nærtækt grjótið úr henni í garða sína, auk þess sem líklegt má telja að eitthvað af því hefur farið undir vatnsleiðsluna í Lambagjá.

Topphlaðna fjárborg má enn sjá í Djúpudölum ofan Selvogs. Markmiðið með hleðslu Þorbjarnarstaðaborgarinnar í Brunntorfum var að hlaða hana upp í topp, en hætt var við verkið í miðjum kliðum, enda umfaðm borgarinnar allt of mikið til að þakið gæti haldist uppi, jafnvel með ætluðum miðvegg til stuðnings.

Þótt fjárborgir hafi oft verið hringlaga er það ekki algilt og bæði fornleifaskráning og heimildakönnun sýna að fleiri gerðir mannvirkja hafa verið kallaðar fjárborgir. Yfirleitt er hugtakið „borg“ þó notað um borghlaðin mannvirki, þ.e. hlaðin þannig að hleðslan dregst smám saman að sér, mjókkar upp á við, jafnvel svo hátt að hleðslur mætist í toppinn. Þau þurfa ekki endilega að vera hringlaga í grunninn þótt það sé algengt. Í slík hús á ekki að þurfa neitt timburverk ef vel er að verki staðið. Opin hringlaga fjárskýli eru líka kölluð borgir eða fjárbyrgi, jafnvel þótt hleðslan halli ekki inn á við. Hugtakið fjárbyrgi er reyndar notað frjálslega í heimildum, um allskonar skýli fyrir fé, bæði þau sem eru náttúruleg, eins og t.d. hella, smáskúta og líka mannvirki eins og beitarhús og jafnvel stekki.

Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!