ATH: Rétt merki nr. 18 er á Valahnúkum. Slæðst hefur inn á prentaða kortið talan 18 á milli Alfaraleiðar og eldri línuvegar Suðurnesjalínu. Hún á ekki að vera á kortinu.

Steinrunnin tröll trjóna efst á Valahnúkum. Þau sáust langt að og reyna heldur ekki að leynast.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglyndir náttúruvættir. Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll.

Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir á heimleið þegar þau höfðu sótt sér hval við Hvaleyri – sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru stödd þá stundina.