Helluhraun er afurð eldgosa úr eldborgum, dyngjum og gígaröðum. Hægt er að líkja helluhrauni við seigan vökva þar sem það rennur fremur hratt um stund, en storknar síðan smám saman – fyrst á yfirborðinu.
Í Skúlatúnshrauni sunnanverðu, norðan Melkraka vestanverðan, hefur áður runnið lækur úr Óbrennishólum. Vatnið hefur skolað hraunskorpuna og opinberað á henni falleg, margvísleg, hraunreipi.
Á helluhraunum sem hafa náð að haldast þunnfljótandi allt þar til þau stöðvast hefur myndast tiltölulega slétt og samfelld deig skorpa, sem einangrar hraunið og því er útgeislunin ekki næg til að það kólni og verði of seigt. Undir því rennur hraunið heitt uns það nær jaðrinum. Svoleiðis myndast eins konar tær, eða koddar, í jaðri hraunsins þegar hraunið rífur gat á hann og smeygir sér í gegn. „Nýjar tær geta komið fram á milli eldri táa eða í þeim miðjum og þannig skríður hraunið fram, oft í nokkrum óreglulegum áföngum. Sé flæðið hraðara undir yfirborðinu og yfirborðið hálfstorknað geta einnig myndast svokölluð reipi ofan á hrauninu en þau myndast vegna núnings deigrar skorpunnar við fljótandi hraunbráðina.“
Skammt suðvestar er hraunhellirinn Leiðarendi með öllum þeim dásemdum og litadýrð er góður hraunhellir hefur upp á að bjóða.
Leave A Comment