Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að í Hamrinum (Hamarkotshamri) sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum.

Sagan segir að eitt sinn er Gunnar var á gangi norðan- eða austan megin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum. Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. „Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er mælt, að hann hafi kannast við lögin og sálmana en eigi hugvekjuna eða predikunina. Eftir lesturinn var sunginn sálmur og að honum loknum gekk Gunnar úr jafnhljóðlega og þá er hann kom inn.“ Þrátt fyrir margar tilraunir Gunnars varð hann aldrei aftur var við álfana í Hamrinum.