Á Bleiksteinshálsi er varða. Þetta er landamerkjavarða milli Hvaleyrar, Áss og Jófríðarstaða. Frá henni liggur línan til austurs í vörðu á Miðhöfða. Þannig verður Hvaleyrarsel sunnan Hvaleyrarvatns í landi Hvaleyrar, Ássel skammt austar í landi Áss og Jófríðarsel í Húshöfða í landi Jófríðarstaða. Flóknara er það nú ekki – nema ef vera skyldi staðsetning vörðunnar í nútímanum. Þegar jarðvegstippur var ákveðinn austan Grísaness höfðu einhverjir a.m.k. vit á að staðnæmast með framkvæmdir við vörðuna.

Vörður verða aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur. Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.

Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að. Vörður voru af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu skipulega ofan á annað, þar til komin var myndarleg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna. Snarpir jarðskjálftar, hörkufrost með umhleypingum og illvilji hafa leikið þessi mannvirki grátt í gegnum tíðina.

Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!