Reynivið má sjá víða í hraunum í og við Hafnarfjörð, einkum þar sem fræ ná rótum í jarðföllum og sprungum. Hafnarfjarðarhraunin runnu frá Búrfelli fyrir u.þ.b. 8000 árum. Skjólsæl svæði, s.s. Hellisgerði, Víðistaðir og í Hleinum hafa fóstrað ófáa græðlingana.
Reyniviður er fyrsta tréð sem Íslendingar ræktuðu, þeir gróðursettu reynisfræ við bæi sína allt frá landnámsöld. Reynir er algengur í skógum og varð í seinni tíð sérstaklega algengur við heimahús – þá einkum ilmreynir. Hann vex fremur hægt. Það er auðvelt að þekkja reyniviðinn á blöðunum sem eru lítil og tennt. Blöðin raðast á stilka og eru á hverjum þeirra tíu-fimmtán saman. Reynir blómstrar miðsumars og ber þá falleg hvít blóm sem verða síðan að rauðum berjaklösum sem geyma fræ trésins. Reynirinn er oftast einstofna og er bolurinn sver og sterklegur en börkurinn er frekar ljós og þunnur. Reynir verður ekki mjög gamall. Þegar hann er orðinn 70 ára fer hann oftast að falla innan fárra ára. Til eru margar tegundir af reynivið á Íslandi, algengustu tegundirnar eru: ilmreynir, gráreynir, silfurreynir og koparreynir sem reyndar er runni. Talið er að allt að 120 tegundir af reyni séu á norðurhveli jarðar.
Klofaklettur eða hraunhveli eru einnig nefnd Troðhólar. Þau myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku þar undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins.
Eitt dæmi þessa er stakt hraunhvelið vestan Hvaleyrarvatns þar sem reynir teygir sig upp úr klettinum. Vestan í því er gamalt tófugreni.
Leave A Comment