Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, 180 m hátt yfir sjó, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Hraunstraumarnir sem runnu frá gígnum nefnast einu nafni Búrfellshraun en hafa fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli og allar náð til sjávar. Stærsta tungan rann niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á þessum hluta hraunsins. Önnur hrauntunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum. Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir í dag. Ystu totur hraunsins eru því sokknar í sæ og teygja sig nokkuð út fyrir núverandi strönd.
Búrfell og Búrfellsgjá voru friðlýst árið 2020.
Leave A Comment