Undir Stórhöfða, skammt vestan við Stórhöfðastíg er heillegt fjárskjól í Selhrauninu. Fjárskjól þetta hefur enn ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Það er í landi Hvaleyrar og hefur væntanlega tengst minjunum umhverfis Hvaleyrarsel, s.s. stekkjum o.fl., sem þar eru á og við Selhöfða og í Seldal. Líklegt má telja að skjól þetta hafi verið nýtt sem nátthagi, a.m.k. að hluta til.

Fjárskjól eru 163 á Reykjanesskaganum, flest í hraununum ofan Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Um eru að ræða leifar fyrri búskaparhátta þegar fjárbúskapur var önnur af tveimur stoðum samfélagsins. Hin var útræðið.

Enn má víða sjá minjar fjárskjólanna, langflestar í skútum, hellum eða undir slútandi klettum. Fyrirhleðslur eru jafnan úr tilfallandi efni; grjóti með dyraopum. Skjólin eru algengari í hraununum á vestanverðum Skaganum, enda aðstæður þar sérstaklega hagstæðar til skjóls fyrir fénað en á berangri og jökulsorfnum hlíðum hans að austanverðu, að Þingvallasvæðinu slepptu. Þau má gjarnan finna nálægt bæjum eða við aðra nýtingarstaði, s.s. selin.

Hús voru ekki byggð sérstaklega yfir fé á þessu landsvæði fyrr en á 20. öld. Þangað til var notast við náttúruleg skýli með smávægilegum lagfæringum. Skjól nálægt bæjum voru jafnan nefnd ból, sauðahellir eða lambakró. Við selin voru þau yfirleitt nefnd eftir örnefnunum, sem hýsti þau, s.s. Þúfhólsskjól, Grænhólsskjól, Sjónarhólsskjól, Meitlaskjól, Tóhólaskúti, Skógarnefsskjól, Vatnagarðahellir, Katlahraunsskjól, Sauðabrekkuskjól og Hrauntunguskjól, eftir staðarheitinu; Eimuselsskjól, Setbergsselshellir, Litlalandsfjárskjól, Hamarskotsselshellir, Fornaselshellir, Kálffellsskjól og Þingvallahellir, eftir ábúandanum; Oddshellar, Þorsteinshellir og Gvendarhellir (Arngrímshellir) eða eftir tiltekinni kind; Gránuskúti og Kápuskjól. Þar sem hellar voru langir var hlaðið fyrir rásina innanverða til að takmarka frekari aðstöðu fjárins, s.s. í Bjargarhelli og Strandarhelli í Selvogsheiði og Rauðshelli í Helgadal.

Fjárskjól nálægt byggð hafa nánast öll verið eyðilögð vegna byggingaframkvæmda. Nýjasta dæmið er fjárskjólið í Dalnum milli Grísaness og Hamraness við Hafnarfjörð.

Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!