Vestan götunnar að Óttarsstöðum á vinstri hönd er Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann fyrir mörgum árum). Rétt þar fyrir norðan var jarðfall slétt í botn og réttarveggir hlaðnir á brúnunum. Rétt þessi var venjulega notuð á haustin, en hún hefur nú verið rifin niður.
Talsvert suður af þessu er klapparhæð, er nefnist Sigurðarhæð. Í henni er hellisskúti með fyrirhleðslum, sem Sigurðarhellir heitir. Talið er að einhver Sigurður hafi haldið þarna til um stund í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við í hellum og skútum um tíma. Við hellinn eru leifar af hlöðnu gerði.
Suðvestar er mikill áfastur klapparrani, hár og aflangur. Á honum er há varða, Sigurðarvarða, við Óttarsstaðaselstíginn. Suðaustan í honum er feikna mikið jarðfall. Í því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þarna mun hafa verið nátthagi Straumskúnna – þrátt fyrir að hvylftin sé vestan við landamerkin milli Straums og Óttarsstaða, þ.e. Óttarsstaðamegin.
Ekki var óvanalegt að nágrannar skiptust á nytjum í skiptum t.d. skógarítak, útræði, kolagerð, fjárskjól o.s.frv.
Mekið er við skútann.
Leave A Comment