4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka

Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Minnisvarðinn um Hrafna-Flóka.

Gott að leggja

Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu eða við minnisvarðann og ganga hvort sem er til norðurs niður með Hvaleyrarlóni eða til suðurs með Hraunsvíkinni.

Þessi unga stúlka er í dag 17 árum eldri en þegar myndin var tekin.

Markmið

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Fróðleikur

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni.

Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

Leave A Comment

Go to Top