Ratleikskortin komu úr prentun í dag og liggja frammi í Fjarðarkaupum, Firði, Bókasafninu, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, Músik & sport, Altís og jafnvel víðar.
Eftirvæntingin hefur greinilega verið mikil og margir spurt um kortin. Einmuna veðurblíða öskrar hreinlega á útivist í upplandinu og á góðum degi er flott útsýni frá ratleiksstöðunum enda er þema leiksins í ár er: Hnúkar, hamrar, höfðar, holt, — hlíðar, hæðir og hólar
Hann Egill Guðmundsson, einn af virkum Ratleiksþátttakendum, var fljótur að sjá ljóðrænt úr þemanu og sendi Ratleiknum eftirfarandi:
Hnúkar hamra Höfða
Holt er lágt að vanda
Hlíðar mynda Hæðir
Hólar einir standa
Flott lýsing á hugtökunum!
Leikurinn leiðir því þátttakendur á staði með gott útsýni og að sjálfsögðu á áhugaverða staði sem eiga sér sína sögu, sem finna má nánar um á ratleikskortinu í styttri útgáfu en í fullri útgáfu hér á síðunni.
Óvenju mörg merki eru í bænum og allra næsta nágrenni og höfðar leikurinn sérstaklega til þeirra sem eru að prófa í fyrsta sinn en er einnig krefjandi fyrir göngugarpana.
Munið að birta ALDREI lausnarorðið á ratleiksspjöldunum.
Munið Facebook hóp þátttakenda þar sem hægt er að leita ráða og fagna góðum árangri. Hópinn má finna hér.
Bæjarstjóri fékk áskorun um þátttöku

Guðni Gíslason, höfundur Ratleiksins afhendir Valdimar Víðissyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði ratleikskort með áskorun um þátttöku. – Ljósmynd: Fjarðarfréttir/KÞÁ.
Valdimar Víðisson fékk við táknræna athöfn fyrsta kortið afhent í dag. Það fylgdi þó skilyrðum, áskorun um að taka þátt í leiknum og kynnast um leið upplandi bæjarins betur.
Tók hann því vel og sagðist ekki skorast undan því og tæki konu sína, Sigurborgu Geirdal, með. Skoraði Ratleiksmeistari á þau að nýta mánaðarlegar áskoranir þeirra hjóna í að taka ákveðinn hluta af Ratleiknum og tóku þau vel í það. Fram kom í viðtali við Valdimar nýlega að þau hjón hafi haft þá skemmtilega venju síðan 2016 að gera eitthvað nýtt saman í hverjum mánuði.
Þakkir
Ómar Smári Ármannsson fær þakkir fyrir ómetanlega aðstoð við gerð leiksins en hann er manna kunnastur á náttúru og minjum Reykjanesskagans. Þá ber að þakka Hafnarfjarðarbæ fyrir að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni, Rio Tinto á Íslandi fyrir að vera aðalstyrktaraðilinn enn eitt árið og öllum þeim fyrirtækjum og stofnunum sem lagt hafa leiknum lið með vinningum og auglýsingum.
Skráðu gjarnan þátttöku þína
Við viljum gjarnan vita hversu margir taka þátt og eiga möguleika á að senda póst til þátttakenda, eingöngu um það sem tengist Ratleik Hafnarfjarðar.
Enginn skylda er að skila inn lausnarmiða en allir sem hafa a.m.k. fundið einhver 9 ratleiksmerki geta skilað inn og átt möguleika á vinningi.
Allir sem hafa fundið a.m.k. 9 merki er þó hvattir til að skila inn lausnum í síðasta lagi 23. september.
Hlakka til ! 😊